Ég heiti Guðbjörg Linda Hartmannsdóttir, kölluð Linda Hartmanns, og er fædd árið 1989. Ég er fædd í Reykjavík en ólst upp í 5 ár í Suður-Afríku sem krakki. Fyrir utan það var ég einunigs alin upp í miðbæ Reykjavíkur.
Ég er alin upp í kirkju og þar af leiðandi er ég enn trúuð í dag þó svo að forsendur trúarinnar hafi breyst í gegnum tíðina hjá mér, en ég fékk mikinn innblástur úr kirkjutónlistinni.

Ég byrjaði 9 ára að læra á píanó, eftir að ég flutti heim til Íslands frá Suður-Afríku, í Suzuki tónlistarskólanum í Reykjavík og var þar í 6 ár. Eftir það lærði ég í Tónlistarskólanum í Reykjavík og fór síðan í eina önn að læra hjá Tónheimum, eftir eyranu.

Frá 10 ára aldri var ég í Barnakór Hallgrímskirkju og færðist svo yfir í Unglingakór Hallgrímskirkju eftir að ég varð táningur. Ég var þar í nokkur ár, eða þar til ég var orðin of gömul til að halda áfram. Ég var einnig í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, en ég gekk í þann menntaskóla eftir grunnskóla. Ég var síðan í kór FÍH tónlistarskólans og kór Háteigskirkju í einn vetur. Ég lærði jazz söng í Tónlistarskóla FÍH í rúm 3 ár en tók mér pásu þaðan á vorönn 2016 eftir að það var orðið of annasamt hjá mér. Ég byrjaði í reggae hljómsveitinni Lefty Hooks & The Right Thingz í apríl 2016 og það gengur mjög vel. Á undan þeirri hljómsveit var ég í stelpubandinu Elektra en við störfuðum á árunum 2010-2011. Við túruðum um allt land sumarið 2010 með annarri hljómsveit, Dalton, og fórum einnig í túr til Noregs að spila fyrir 3.000 manns.

Ég byrjaði að semja lög árið 2007 og hætti því í nokkur ár eftir að ég stofnaði fjölskyldu en byrjaði aftur á fullu í lagasmíðum árið 2016 og hefur það gengið mjög vel síðan. Þau afköst hafa skilað mér í The Voice Ísland söngvakeppnina og í topp 12 hópinn í Söngvakeppni sjónvarpsins.

Ég er og verð með mörg skemmtileg tónlistarverkefni árið 2017 og mun ég takast á við þau eftir bestu getu. Ég er rosalega spennt.